Heim | | Um söfnunina | | Ítarefni | | KARAÓKIMARAÞON | | Information in English | | Sendu okkur póst |
Innan fárra daga er áætlað að endanlegur samningur um kaup Magma Energy Sweden AB á HS Orku verði samþykktur. MES fær þar með einkarétt á nýtingu dýrmætra og mikilvægra auðlinda okkar til næstu 65 ára með framlengingarmöguleika til annarra 65 ára! Fyrirtækið kaupir þennan aðgang að auðlindum okkar mjög ódýrt miðað við önnur lönd, í óvenju langan tíma miðað við önnur lönd og á kjörum sem virðast að öllu leyti kaupandanum í hag en seljanda í óhag. Færð hafa verið rök fyrir því að salan sé óumflýjanleg þar sem við verðum að fá erlenda fjárfesta inn í landið til þess að styrkja atvinnuuppbyggingu. Staðreyndin er hinsvegar sú að Magma Energy fær stærsta hluta kaupverðsins að láni innanlands – á kjörum sem standa öðrum fyrirtækjum af einhverjum ástæðum ekki til boða. (sjá tengil á fylgiskjal með útreikningum).
Hrein græn orka verður, samkvæmt áreiðanlegustu hagspám, dýrmætari og eftirsóttari með hverjum deginum, vegna yfirvofandi orkuskorts í heiminum. Íslendingar ættu því alla jafna að efnast á orkuauðlindum sínum, ef þeir umgangast þær af ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.
Salan á HS Orku er prófsteinn á auðlinda- og orkustefnu framtíðar.
Það eru erfiðir tímar og við höfum, að sögn, ekki efni á að kaupa HS Orku. En höfum við efni á að sleppa því?
Ef almenningur fær lögsögu í þessu gríðarlega hagsmunamáli og tekur þátt í að móta framsýna, réttláta orkunýtingar- og auðlindastefnu með þjóðaratkvæðagreiðslu -í kjölfar heiðarlegrar og gagnsærrar umræðu, þá gæti orkan áfram orðið okkar traustasta eign – og tekjulind, m.a. sú orka sem er á Suðurnesjum og áætlað er að við gefum nú frá okkur. Sú lýðræðislega stefnumótun yrði þá að þörfu fordæmi í heiminum.
Vegna margháttaðs misskilnings og stjórnsýsluklúðurs er nú svo komið að samningurinn um kaup Magma Energy á HS Orku gæti gengið í gegn án þess að við höfum haft ráðrúm til að vega hann og meta í ljósi almennilegra heimilda um málið, aðdraganda þess og afleiðingar. Við stöndum frammi fyrir ákvörðunum sem ekki verða teknar af ráðherraskipuðum nefndum eða einstökum stjórnmálamönnum. Þó er full ástæða til þess að kalla eftir mati stjórnvalda á þessu máli í heild sinni með vísan í 12. grein laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri þar sem segir; ”Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvar slíka fjárfestingu…” Reynist samningurinn jafn óhagstæður og útlit er fyrir þá koma daglega æ fleiri rök fram í dagsljósið sem styðja stjórnvöld í að rifta honum.
Það er nauðsynlegt að minna á að þær ákvarðanir sem teknar voru í aðdraganda þessa máls voru teknar af stjórmála- og embættismönnum sem fá falleinkun í rannsóknarskýrslu Alþings. Það er brýnt að við drögum lærdóm af þeim mistökum sem gerð hafa verið og þess vegna viljum við hvetja almenning í landinu til þess að sýna stjórnmálamönnum aðhald með því að lýsa vilja sínum um framtíðarskipan eignahalds á orkuauðlindunum.
Undirskrift þjóðarinnar við þessa áskorun er viljayfirlýsing sem stjórnvöld hljóta að taka mark á.
Björk Guðmundsdóttir, Jón Þórisson, Oddný Eir Ævarsdóttir.